Allra veðra von

2018, Hafnarborg - samsýning.
Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Sigrún Hlín Sigurðardóttir og Steinunn Lilja Emilsdóttir.
Sýningarstjóri: Marta Sigríður Pétursdóttir.

Ljósmyndir: Ragnheiður Maísól

Allra veðra von var fjórða sýning IYFAC, en sýningin var haustsýning Hafnarborgar árið 2018.
Á sýningunni rannsökuðu listakonurnar samband mannsins við veðrið. Samhliða sýningunni var gefin út bók sem bar sama titil.

Hvað er hversdagslegra en veður? Hvað er stöðugra en veður? Við sitjum alltaf uppi með veðrið, rétt eins og við sitjum uppi með okkur sjálf. Við og veðrið, þetta er stærsta ástarsaga heimsins og hún teygir sig langt aftur í veraldarsögunni.
— Ragnheiður Harpa Leifsdóttir
Mér finnst mjög áhugavert að skoða mannlega tengingu okkar við veðrið. Hvaða áhrif hefur veður á líkama okkar? Húðin verður þurr í vissum aðstæðum, hárið óviðráðanlegt og fólk fær verki í líkamann. Það er ekki hægt að elda og baka vissa hluti undir vissum veðurskilyrðum þó svo að maður sé innandyra. Svo er talað um breytta hegðun dýra eftir veðri.
— Ragnheiður Maísól Sturludóttir
Viðleitni mannsins til að skýla sér fyrir veðri er sammannleg og hefur um leið fjölbreyttar birtingamyndir: efnin koma ýmist úr plönturíkinu eða dýraríkinu, eða þangað til nú í seinni tíð þegar gerviefni sem búin eru til úr jarðolíu komu til sögunnar.
— Sigrún Hlín Sigurðardóttir
Mér finnst fegurð mikilvæg. Hún vekur áhuga og lætur okkur staldra við og hugsa og kanna tilfinningar okkar. Klassísk form, hringur, ferhyrningur og svo framvegis – og tilbrigði við þau – heilla mig og tala til mín.
— Steinunn Lilja Emilsdóttir
Hvaða hugrenningatengsl myndar veður við tilfinningar? Stormsveipur, þokuslæðingur, haglél, heiðskýrt, skýjað með skúrum, slydda, logn, andvari. Þetta eru kannski oftar neikvæðari tilfinningar. Þær geta samt líka verið fallegar, þó þær séu neikvæðar og erfiðar.
— Halla Birgisdóttir